Þvagblaðran hefur mjög teygjanlega eiginleika og er að mestu byggð upp af vöðvum. Þessir vöðvar gera blöðrunni kleift að teygjast til þess að safna þvagi og dragast saman til þess að tæma hana. Þvagblaðran getur almennt geymt um 500-700 ml af þvagi á hverjum tíma. Fólk finnur almennt fyrir þvagþörf þegar magn þvags fer yfir helming þess magns sem þvagblaðran getur borið.
Tveir vöðvar, innri og ytri lokuvöðvar við botn þvagblöðru, sjá um það að halda þvagblöðrunni lokaðri. Eftir því sem blaðran fyllist fara þessir vöðvar að slaka meira á. Þegar blaðran er alveg við það að fyllast berast sjálfvirk boð frá mænunni í innri lokuvöðvann og okkur fer að verða mjög mikið mál. Undir eðlilegum kringumstæðum getur fólk stjórnað því hvenær ytri lokuvöðvinn slakar á og þannig haldið í sér þar til komið er á salerni. Þá slakar fólk alveg á ytri vöðvanum, þvagblaðran dregst saman og tæmist. Þegar fólk missir, eða býr ekki yfir, stjórn á þessum ytri lokuvöðva, þá fer fólk að missa þvag ósjálfrátt.
Fræðilega er talað um nokkrar gerðir þvaglekavandamála.
Þvagleki eða ósjálfráð þvaglát geta verið merki um bráðan sjúkdóm eins og þvagfærasýkingu en einnig getur verið að fólk sé að glíma við annars konar vandamál eins og taugasjúkdóma, áfegisvandamál, vandamál eftir barnsburð, hægðatregðu, ruglástand, hreyfingarleysi, streitu og/eða aðra langvinna sjúkdóma. Eins geta þvaglekavandamál verið fylgikvilli þess að eldast.
Öldrunarbreytingar geta orðið í nýrum og þvagfærum. Þessar breytingar verða þess valdandi að blóðflæði um nýru minnkar sem veldur til dæmis minnkaðri hæfni nýrna til að útskilja lyf. Þvagblaðran getur einnig misst teygjanleika sinn og verri tæming á þvagblöðru. Þetta getur einnig orsakast af stækkun á blöðruhálskirtli hjá karlmönnum. Ytri aðstæður geta einnig orsakað þvagleka hjá fólki, eins og skortur á klósettum, erfiður klæðnaður, erfitt að hneppa frá, fólk ratar ekki á klósett, ekki næði á klósettinu eða fólk fær ekki nógan tíma.
Hægt er að gera ýmislegt til þess að fyrirbyggja þvagleka og má þar helst nefna grindarbotnsæfingar, reglubundna hreyfingu og blöðruþjálfun þar sem viðkomandi reynir að halda í sér og hemja þvagblöðruna. Einnig er hægt að grípa til blöðrudempandi lyfja. Meðferðin ræðst þó á því hvers kyns vandamálið er og best er að velja meðferð í samráði við lækni eða annað fagfólk.
Gott er þó að hafa í huga að sumir drykkir og sum fæða er blöðruertandi og má þar helst nefna kaffi, te, áfengi og súrir drykkir/fæða. Auk þess er alltaf gott að skipuleggja reglulegar klósettferðir yfir daginn og fara alltaf á salernið fyrir nóttina. Þá þarf að huga að aðgengi og ytri aðstæðum.
Til þess að bæta lífskjör og lífsgæði fólks með þvagleka er notkun þvaglekavara nauðsynleg. Þá er þarf að velja vöru sem hentar hverjum einstaklingi fyrir sig. Miða skal út frá því að velja sem minnsta vöru og hægt er en eins stóra og þörf er á. Gott er að endurmeta reglulega hvaða vöru er best að nota. Til eru einnig margar gerðir af undirleggjum/undirbreiðslum í rúm eða stóla sem hægt er að nota ef þörf er á en þá er vert að hafa í huga að þau geta krumpast og aukið hættu á þrýstingssárum. Það er alls ekki mælt með því að setja eina þvaglekavöru innan í aðra því það vinnur gegn eðlilegri virkni þvaglekavaranna. Ef það er að leka meðfram þvaglekavörunni sem er notaður, þá er varan ýmist ekki rétt sett á eða varan hentar viðkomandi mögulega ekki.
Hægt er að nýta sér rakamagnslínurnar á þaglekavörunum til þess að sjá hvort varan er mettuð eða ekki. Rakamagnslínurnar hjálpa einnig til við að meta hvort varan sé að taka rétt við þvaginu og dreifa því jafnt um þvaglekavöruna eins og hún á að gera. Ef ekki, þá þarf að skoða hvort varan sé rétt sett á og tryggja að varan liggi þétt og rétt að líkamanum. Æskilegt er að vera í góðum nærfötum sem styðja vel við þvaglekavöruna. Ef varan veldur einhverjum óþægindum eða virkar ekki sem skyldi þrátt fyrir rétta notkun gæti verið að varan henti viðkomandi ekki og vert er að prófa aðra stærð eða gerð.
Mikilvægt er að sinna persónulegu hreinlæti vel þegar stykki eru notuð til þess að koma í veg fyrir sár og þvagfærasýkingar. Þá er gott að muna að setja nýtt stykki á að framan, fjarlægja notað stykki að aftan. Það er gert til þess að bakteríur og óhreinindi berist ekki að þvagrásaropi og þá upp í þvagrás. Eftir að stykki er fjarlægt þarf góðan neðanþvott þar sem byrjað er að þvo þar sem er óhreinast og endað þar sem hreinast. Hjá fólki með kvenkynfæri er byrjað á að þvo með hreinum klút gætilega við þvagrásaropið, til að forðast að bera bakteríur þangað og passað að strjúka frá þvagrás og í átt að endaþarmi. Hjá fólki með karlkynfæri er forhúð toguð varlega aftur og gætilega þvegið við þvagrásarop og síðan kónginn á limunum. Síðan þerrað með hreinum klút og forhúð dregin aftur yfir. Pungur í kjölfar þveginn og strokið aftur að endaþarmi.
Forðast skal í öllum tilvikum að nota sterkar sápur. Auk þess þarf að passa að þerra alltaf húð með hreinum klút eftir þvottinn og bera vatnsfráhrindandi smyrsl á húð. Gæta þarf að notuð séu viðeigandi krem eða smyrsl og kanna hvaða krem henta best fyrir mismunandi svæði. Rannsóknir benda til þess að með því að bera viðeigandi smyrsl eða rakakrem tvisvar á dag á húð þá fækki húðrifusárum til mikilla muna, sérstaklega hjá eldra fólki.
Þá er rétt að árétta að stykki koma ekki í stað salernisferða og skipta þarf um stykki reglulega, eða 3x á sólarhring hið minnsta.
Huga þarf vel að húðinni sér í lagi þegar þvaglekavörur eru notaðar að staðaldri. Mikilvægt er þá að huga vel að persónulegu hreinlæti og leggja áherslu á góðan neðanþvott með mildri sápu. Eftir því sem við eldumst því þynnri verður húðin og þurrari. Teygjanleiki húðarinnar minnkar, húð rýrnar og verður næmari fyrir kulda. Húðin verður þar af leiðandi viðkvæmari fyrir áverkum og passa þarf vel upp á hana. Með því að velja rétta þvaglekavöru, sem passar fólki vel, minnka líkurnar á þrýstingi, togi og núningi á allra viðkvæmasta svæðinu. Rétt rakadrægni og góð öndun á þvaglekavörunni kemur svo í veg fyrir að of mikill raki liggi að húðinni.
Sé þvag- og/eða hægðarleka ekki sinnt rétt getur valdið það valdið bruna á húð. Það getur haft í för með sér verki, sviða, kláða og stingi fyrir viðkomandi einstakling og svæðin sem eru útsett eru kynfæri, rasskinnar, rassaskoran og innanverð læri. Húð getur síðan einnig rofnað og sár myndast. Í of miklum raka getur húð einnig verið útsett fyrir sveppasýkingum. Það er því afar mikilvægt að vanda vinnubrögð þegar kemur að persónulegu hreinlæti og tryggja gott viðhald á húðinni
Húðin er stærsta líffæri líkamans og er því nauðsynlegt að hlúa vel að henni. ABENA húðvörulínan er þróuð af sérfræðingum og fara allar vörur í gegnum ítarlegar prófanir og gæðaeftirlit. Húðvörurnar frá ABENA eru mildar, rakagefandi og til þess fallnar að viðhalda heilbrigði húðarinnar og vernda hana.
Gráa húðlínan frá ABENA er viðgerðalínan þeirra og er sérstaklega hönnuð til þess að bregaðst við hinum ýmsu húðvandamálum, einkum þeim sem kunna að fylgja notkun þvaglekavara. Vörurnar í gráu húðlínunni hafa hátt fituinnihald sem hjálpar húðinni að viðhalda náttúrulegri fituvörn sinni. Kremin eru þar að auki afar græðandi, rakagefandi og draga úr roða, kláða, þurrki og öðrum húðpirringi. Verndandi eiginleikar gráu línunnar stuðla að heilbrigði húðarinnar og eru sum kremin með þann sérstaka eiginleika að mynda varnarhjúp á húðina sem hrindir frá sér raka. Barrier Ointment kremið frá ABENA hlutleysir þar að auki ammoníak í þvagi og hægðum og ver húðina því fyrir bakteríum og öðrum óhreinindum.
Það er því afar mikilvægt að tileinka sér góðar hreinlætis- og salernisvenjur til þess að koma í veg fyrir þvagrásarsýkingar og/eða veiklaða húð. Auk þess er mikilvægt að uppfylla daglega vökvaþörf í sama tilgangi og þá er gott að hafa valið þvaglekavöru sem hentar eftir því. Velja góða vöru sem passar, vöru sem andar vel, vanda til neðanþvotts, þerra húð eftir þvott og bera húðverndandi smyrsl á. Þá er rétt að árétta að þvaglekavörur koma ekki í stað salernisferða og skipta þarf um þvaglekavörur reglulega, eða 3x á sólarhring hið minnsta