Skilmálar

1. Um viðskiptaskilmálana

1.1.  Þetta skjal inniheldur þá viðskiptaskilmála (hér nefndir viðskiptaskilmálarnir) sem gilda þegar viðskiptavinur okkar (hér nefndur viðskiptavinur eða þú) kaupir vörur í vefverslun Stórkaups (hér nefnd verslunin) en hún er vefverslun, þ.e. verslun sem er rekin á Vefnum. Nálgast má verslunina á vefsetri sem er aðgengilegt á vefslóðinni www.storkaup.is og netfang verslunarinnar er storkaup@ storkaup.is. Verslunin er rekin af okkur, Stórkaupi ehf., kt. 600122-2820 (hér nefnt seljandi eða við), Skútuvogi 9, 104 Reykjavík, s. 515 1500. Stórkaup er heildverslun sem þjónar einkum stórnotendum með aðföng á breiðum grunni þar sem leiðarljósin eru hagkvæmni, nútímalegt þjónustustig og einfalt skipulag sölu og dreifingar. Stórkaup er í eigu félagsins Hagar hf., kt. 670203-2120.

1.2.  Fjallað er í sérstöku skjali (hér nefndir persónuverndarskilmálarnir) um hvaða persónuupplýsingar við vinnum með í versluninni þegar við seljum beint til einstaklinga, tilgang vinnslunnar og heimildir fyrir henni, miðlun persónuupplýsinga og geymslutíma þeirra, auk ýmissa annarra atriða um þá vinnslu persónuupplýsinga sem fram fer í tengslum við slíka sölu.

1.3.  Til þess að geta keypt vörur í versluninni þarft þú áður að staðfesta að hafa kynnt þér vandlega og samþykkt bæði viðskiptaskilmálana og eftir atvikum persónuverndarskilmálana. Vakin er sérstök athygli á því að þó að gögn um viðskipti viðskiptavina í versluninni séu geymd í upplýsingakerfum á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) þá eru sumir þeirra þjónustuaðila sem fá aðgang að þeim kerfum staðsettir fyrir utan EES og því þarf hver viðskiptavinur fyrir sig, sé hann einstaklingur, að samþykkja ótvírætt og sérstaklega þá lýsingu á vinnslu persónuupplýsinga sem kemur fram í persónuverndarskilmálunum til að geta átt viðskipti við verslunina.

1.4.  Aðgangur að versluninni er eingöngu heimill lögaðilum sem hafa sótt um á netfanginu sala@storkaup.is að gerast viðskiptavinir Stórkaups og Stórkaup hefur samþykkt umsóknina auk þess sem aðgangur að kaupum á vörum úr nokkrum vöruflokkum er á grundvelli samnings við Sjúkratryggingar Íslands heimill nánar tilteknum einstaklingum. Sé umsækjandi um viðskipti lögaðili er lánshæfismati hans flett upp hjá CreditInfo hf. áður en tekin er afstaða til umsóknarinnar og mánaðarleg heimild ákveðin með hliðsjón af því ef umsókn er samþykkt.

1.5.  Notkun verslunarinnar er með öllu óheimil nema í samræmi við ákvæði viðskiptaskilmálanna.

1.6.  Allar tilraunir til að brjóta („hakka“) eðlilega virkni verslunarinnar, til dæmis til að komast fram hjá aðgangshindrunum, fara fram fyrir röð í bið eftir vinsælli vöru, skerða aðgengi að versluninni, breyta verðum eða vöruframboði í henni eða safna upplýsingum um fjölda af vörum í einu („skrapa“), eru með öllu óheimilar.

1.7.  Þér er skylt að varðveita aðgangs-/lykilorð að aðgangi þínum að versluninni þannig að óviðkomandi aðili geti ekki komist yfir slík auðkenni. Öll notkun aðgangs þíns að versluninni skal vera alfarið á þína ábyrgð. Ef þig grunar að óviðkomandi hafi komist yfir aðgangs-/lykilorð að aðgangi þínum að versluninni ber þér að tilkynna það án tafar á netfang verslunarinnar, sbr. 1.1 hér að framan.

1.8.  Þú berð ábyrgð á að uppfæra skráningu í versluninni hverju sinni á netfangi þínu og heimilisfangi svo við getum átt í samskiptum um kaup þín og, þegar um heimsendingu er að ræða, sent þér vörur á rétt heimilisfang.

1.9.  Þessi útgáfa viðskiptaskilmálanna gildir um kaup í versluninni sem eiga sér stað eftir 5. apríl 2022.

1.10.  Viðskiptaskilmálarnir eru ávallt aðgengilegir á vefsetri verslunarinnar, sbr. 1.1 hér að framan. Við áskiljum okkur rétt til að breyta þeim án fyrirvara. Í skilmálunum kemur ávallt fram hvenær núgildandi útgáfa tók gildi til þess að þú getir séð hvort þeir hafi breyst frá því að þú samþykktir þá síðast þegar þú notaðir verslunina.

2. Viðskipti við verslunina

2.1.  Við birtum í versluninni eins greinargóðar lýsingar og okkur er unnt á þeim vörum sem eru þar til sölu og eiginleikum þeirra. Við birtum einnig eftir því sem tilefni gefst lýsandi ljósmyndir af vörunum.

2.2.  Ef þú kaupir vöru í verslun okkar og staðfestir kaupin með því að gefa upp gildan greiðslumiðil sem við tökum við á hverjum tíma, svo sem greiðslukort sem skuldfærsla tekst á fyrir söluverði og eftir atvikum sendingarkostnaði, þá kemst þar með á samningur milli þín og okkar um kaup á þeirri vöru sem svarar til þess vörunúmers sem þú valdir í versluninni. Skuldfært söluverð inniheldur virðisaukaskatt og allan annan aukakostnað okkar af að bjóða þér vöruna til kaups en að auki er skuldfært fyrir sendingarkostnaði, þar sem hann á við (sjá hér að neðan).

2.3.  Þegar viðskiptavinur okkar er einstaklingur sem á í viðskiptum við okkur á grundvelli samnings okkar við Sjúkratryggingar Íslands stendur stofnunin straum bæði af kaupverði á öllum vörum sem viðkomandi kaupir samkvæmt samningnum og af kostnaði við heimsendingu þeirra. Um viðskipti okkar við aðra viðskiptavini fer eftir atvikum samkvæmt skilmálum þessum og ákvæðum laga um lausafjárkaup, nú nr. 50/2000. Til áréttingar teljast slíkir viðskiptavinir ekki neytendur í skilningi laga og kaup þeirra ekki til neytendakaupa.

2.4.  Ef þú átt ekki viðskipti við okkar á grundvelli samnings okkar við Sjúkratryggingar Íslands er okkur ekki skylt að afhenda eða senda þér vöru fyrr en greiðsla hefur borist að fullu, t.d. að skuldfærsla fyrir kaupunum hefur tekist á uppgefið greiðslukort þitt.

2.5.  Okkur er heimilt að falla frá kaupum ef mistök hafa orðið í skráningu vöru, svo sem ef rangt verð birtist í versluninni eða boðin er þar til sölu vara sem ekki er lengur til hjá okkur.

2.6.  Við berum ekki ábyrgð á að vara sem þú kaupir í versluninni: henti í einhverjum ákveðnum tilgangi, til dæmis sem þú ætlaðir að nota vöruna í; hafi einhverja tiltekna eiginleika til að bera, svo sem varðandi endingu, sem ekki koma sérstaklega fram í lýsingu á vörunni í versluninni; eða verði afhent í einhverjum sérstökum umbúðum sem ætlaðar eru til að varðveita eða vernda vöruna.

2.7.  Þú getur komið og sótt á starfsstöð Aðfanga ehf., Skútuvogi 7, 104 Reykjavík, þér að kostnaðarlausu, þær vörur sem þú hefur keypt í versluninni eða fengið þær sendar heim á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni. Ef þú sækir ekki innan 5 daga (eða innan 14 daga ef þú ert viðskiptavinur okkar á grundvelli samnings okkar við Sjúkratryggingar Íslands) þær vörur sem þú tilkynntir okkur að þú myndir sækja þá lítum við svo á að þú hafir fallið frá kaupunum og munum bakfæra þau.

2.8.  Ef þú óskar eftir að við sendum þér vörur sem þú kaupir hjá okkur þá kaupum við ekki tryggingar vegna flutnings þeirra til þín. Við berum því enga ábyrgð á týndum sendingum eða tjóni sem kann að verða á vöru í flutningi. Við hvetjum þig því til að gæta vel að því að sumar vörur geta spillst, svo sem vegna hitabreytinga, í flutningi eða ef þær eru skildar eftir til afhendingar, t.d. fyrir utan starfsstöð þína. Allir vöruflutningar fara fram með eigin flutningabifreiðum okkar eða með flutningafyrirtækinu Flytjanda. Jafnan eru vörur keyrðar út á höfuðborgarsvæðinu (afhentar Flytjanda ef sent er út fyrir höfuðborgarsvæðið) næsta virkan dag ef keypt er fyrir kl. 14:00 á virkum degi en vörur sem keyptar eru eftir þann tíma eru jafnan keyrðar út einum virkum degi síðar. Þó að stefnt sé að afhendingu innan þessara fresta þá getur það dregist, svo sem vegna óvenjumikils álags eða annarra óviðráðanlegra ástæðna. GJald fyrir heimsendingu er 3.000 kr. fyrir hver vörukaup en sendingarkostnaður greiðist af Sjúkratryggingum Íslands ef vörukaupin falla undir samning okkar við stofnunina. Ef verslað er fyrir meira en 25.000 kr. að frádregnum vsk. fellur sendingarkostnaður niður.


3. Skilafrestur og endurgreiðsluréttur

3.1.  Ef þú ákveður að endursenda vöru sem heimilt er að skila samkvæmt 3.2 eða 3.3 hér að neðan þá berð þú ábyrgð á og kostnað af því nema þú hafir fengið ranga eða skemmda vöru afhenta og farir að neðangreindum skilyrðum.

3.2.  Eftir að einstaklingur, sem er viðskiptavinur okkar á grundvelli samnings okkar við Sjúkratryggingar Íslands, hefur keypt hjá okkur vöru hefur hann 14 daga til að endursenda hana eða skila henni á starfsstöð okkar, sbr. 1.1 hér að framan, að því tilskildu að varan hafi ekki verið notuð, henni sé skilað í fullkomnu ástandi í upprunalegum og óskemmdum umbúðum, að innsigli hafi ekki verið rofið og, ef viðskiptavinur er lögaðili, að afrit af vörureikningi fylgi með. Endursendingar á vörum verða að berast okkur á póstfangið Stórkaup, Skútuvogi 9, 104 Reykjavík, innan 14 daga frá móttöku vörunnar hjá þér. Ekki er þó hægt að skila vörum sem lög undanskilja skilarétti, sbr. nú 18. gr. laga um neytendasamninga.

3.3.  Um skilarétt annarra viðskiptavina gilda eftirtalin skilyrði: Ef vara er gölluð eða rangt afgreidd skal viðkomandi viðskiptavinur, innan tveggja sólarhringa, senda afdráttarlausa tilkynningu um það með tölvupósti á netfang verslunarinnar ásamt upplýsingum um söluna og samskiptaupplýsingum sínum. þ.e. netfangi og símanúmeri. Hafi vara hins vegar skemmst í meðhöndlun þriðja aðila, svo sem flutningsaðila, skal viðskiptavinur gera athugasemd við flutningsaðila um það strax við vöruafhendingu, auk þess að upplýsa Stórkaup. Gallaðar eða rangt afgreiddar vörur utan höfuðborgarsvæðisins skulu endursendar til Stórkaups með Flytjanda en þó einungis að fyrirfram höfðu samráði við Stórkaup. Til að forðast óþarfa kostnað getur Stórkaup ákveðið að nóg sé að fá sendar ljósmyndir af gölluðum vörum til staðfestingar galla eða rangrar afgreiðslu. Sé framangreindum skilyrðum fullnægt er kreditreikningur gerður eftir að varan hefur borist Stórkaupi og hefur verið yfirfarin eða ef galli eða röng afgreiðsla hefur verið staðfest af starfsmanni Stórkaups á grundvelli annarra upplýsinga.

3.4.  Endurgreiðslur eru framkvæmdar með því að færa fjárhæð jafn háa verði hinnar skiluðu vöru aftur inn á sama greiðslumiðil og greitt var með fyrir vöruna, svo sem greiðslukort eða að öðrum kosti með því að gefa út kreditnótu fyrir fjárhæðinni og senda hana á skráð netfang viðskiptavinar.

4. Lokun reiknings viðskiptavinar

4.1.  Skráning þín sem viðskiptavinar verslunarinnar gildir ótímabundið, farir þú að viðskiptaskilmálunum. Ef þú vilt segja upp viðskiptum þínum þá gerir þú það með því að loka reikningi þínum á vefsetri verslunarinnar, sbr. 1.1 hér að framan.

4.2.  Okkur er heimilt að segja viðskiptum upp án fyrirvara og loka reikningi þínum án sérstakrar tilkynningar ef þú brýtur gegn viðskiptaskilmálunum. Þá áskiljum við okkur rétt til að krefjast skaðabóta vegna tjóns sem leiðir af brotum á þeim.

5. Gildandi lög og samningsvarnarþing

5.1.  Um viðskiptaskilmála þessa gilda íslensk lög. Rísi dómsmál um ágreining milli aðila í tengslum við þá skal það mál rekið fyrir héraðsdómi Reykjavíkur.

5.2.  Seljanda er allt að einu heimilt að leita aðstoðar dómstóla og stjórnvalda hvar í heimi sem er til framkvæmdar aðfarargerða eða annarra sambærilegra ráðstafana til að tryggja réttindi sín og fá skyldur samkvæmt viðskiptaskilmálunum uppfylltar.

1. Um þetta skjal

1.1.  Í þessu skjali (hér nefndir persónuverndarskilmálarnir) er að finna upplýsingar um þá vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram þegar einstaklingur (hér nefndur viðskiptavinur eða þú) fær afhentar vörur í vefverslun Stórkaups (hér nefnd verslunin) á grundvelli samnings okkar við Sjúkratryggingar Íslands. Verslunin er rekin af okkur, Stórkaupi ehf., kt. 600122-2820, Skútuvogi 9, 104 Reykjavík, s. 515 1500. Stórkaup er ábyrgðaraðili allrar vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við verslunina og er heildsölufyrirtæki í eigu félagsins Hagar hf., kt. 670203-2120.

1.2.  Í persónuverndarskilmálunum er fjallað um hvaða persónuupplýsingar við vinnum með í versluninni, tilgang vinnslunnar og heimildir fyrir henni, miðlun persónuupplýsinga og geymslutíma þeirra, auk ýmissa annarra atriða um þá vinnslu persónuupplýsinga sem fram fer í tengslum við verslunina.

2. Tegundir persónuupplýsinga, tilgangur vinnslunnar og heimildir fyrir henni

2.1.  Til þess að við getum afgreitt þig í versluninni og veitt þér þá þjónustu sem boðið er upp á eða þú samþykkir sérstaklega að þiggja þurfum við að vinna með margs konar persónuupplýsingar, í ýmiss konar tilgangi og á grundvelli ólíkra heimilda. Þetta eru þær tegundir persónuupplýsinga sem við öflum beint frá þér eða við höfum fengið sendar til okkar frá fyrri birgi þínum, Olís hf., með þínu samþykki en við öflum engra upplýsinga um þig annars staðar frá:

2.2.  Tengiliðaupplýsingar, þ.e. nafn, kennitölu, heimilisfang og netfang: Þessar upplýsingar eru nauðsynlegar til að hægt sé að tryggja að ef þú óskar eftir að við sendum þér vörur þá sendum við þær á réttan stað, til að gefa okkur kost á að eiga í samskiptum um vörukaupin, til að tryggja að réttur viðskiptavinur sé skráður sem viðtakandi, svo sem vegna reikningagerðar og ef kemur til vöruskila og til að veita Sjúkratryggingum Íslands upplýsingar um viðskiptin. Okkur er því nauðsynlegt að vinna með þessar upplýsingar vegna samnings Sjúkratrygginga Íslands við okkur um vörukaupin, sem og vegna lagaskyldu sem hvílir á okkur, einkum vegna laga um virðisaukaskatt og bókhald.

2.3.  Upplýsingar um vörukaup þín hjá okkur eða hjá fyrri birgi, þ.e. hvaða vörur þú keyptir, hvenær og fyrir hvaða upphæð: Við vinnum með þessar upplýsingar, eins og með tengiliðaupplýsingarnar, sbr. hér að framan, í þeim tilgangi að geta selt og sent þér þær vörur sem þú óskar eftir, til að geta staðið við skyldur okkar samkvæmt samningi okkar við Sjúkratryggingar Íslands og til að geta staðið við lagaskyldur okkar, svo sem varðandi vöruskil og endurgreiðslur. Okkur er því nauðsynlegt að vinna með þessar upplýsingar vegna samnings okkar við Sjúkratryggingar Íslands og vegna lagaskyldu sem hvílir á okkur.

2.4.  Auk þess að vinna með persónuupplýsingar notum við margs konar ópersónugreinanlegar upplýsingar til að starfrækja verslunina, t.d. tölfræðilegar upplýsingar um hvenær viðskiptavinir okkar versla hvaða vörur o.s.frv. Engar slíkar upplýsingar er hægt að rekja til tiltekins viðskiptavinar heldur er einungis um að ræða ópersónugreinanlegar upplýsingar um hópa viðskiptavina.

3. Miðlun persónuupplýsinga

3.1.  Þeim persónuupplýsingum um þig sem við vinnum með miðlum við ekki til þriðja aðila, svo sem til utanaðkomandi vinnsluaðila til dæmis til geymslu eða bókhaldsþjónustu, nema í eftirtöldum tilvikum:

3.2.  Allar vörur sem þú færð afhentar úr versluninni og heimsending þeirra eru greiddar af Sjúkratryggingum Íslands á grundvelli samnings okkar við stofnunina. Við miðlum upplýsingum um vörukaup þín til hennar til að tryggja réttar greiðslur fyrir þær frá Sjúkratryggingum Íslands.

3.3.  Það upplýsingakerfi sem við notum til að reka verslunina er rekið af vinnsluaðila okkar og hýst, ásamt öllum upplýsingum, innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Hins vegar er vakin sérstök athygli á því að þeir undirvinnsluaðilar sem veita okkur notendaþjónustu varðandi rekstur kerfisins eru sumir hverjir staðsettir fyrir utan EES en geta fengið aðgang að kerfinu til að aðstoða okkur varðandi atriði sem koma upp við rekstur kerfisins. Þessu fylgir mögulega áhætta vegna þess að þessir undirvinnsluaðilar kunna að vera staðsettir í ríkjum, einkum Bandaríkjunum, þar sem ekki liggur fyrir ákvörðun Evrópusambandsins um að vernd persónuupplýsinga sé fullnægjandi og viðeigandi verndarráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja þær og vinnslu þeirra. Þess vegna er sérstaklega óskað eftir ótvíræðu samþykki þínu, sbr. ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nú a)-lið 1. mgr. 49. gr. laga nr. 90/2018, fyrir þeirri lýsingu á vinnslu persónuupplýsinga sem kemur fram í persónuverndarskilmálunum þessum, ef þú vilt eiga viðskipti við verslunina.

3.4.  Bókhaldsgögn eru afhent innlendum endurskoðendum okkar eftir því sem þeir kunna að óska eftir lögum samkvæmt.

3.5. Við áskiljum okkur rétt til að hlíta fyrirmælum þar til bærra íslenskra dómstóla og eftirlitsstofnana um afhendingu gagna, þar á meðal þeirra sem kunna að innihalda persónuupplýsingar.

4. Geymslutími

4.1.  Geymslutími þeirra persónuupplýsinga sem við vinnum með ræðst af þeim tilgangi sem þeirra er aflað í og þeirri heimild sem vinnslan byggist á. Þannig geymum við tengiliðaupplýsingar þínar á meðan þú ert skráður viðskiptavinur verslunarinnar. Rétt er að ítreka að viðskiptavinir geta afskráð sig hvenær sem er og lokað aðgangi sínum fyrirvaralaust.

4.2.  Við vinnum með upplýsingar um vörukaup þín í þann tíma sem okkur er skylt vegna ákvæða í samningi okkar við Sjúkratryggingar Íslands og í lögum um bókhald, þ.e. nú í minnst 7 ár en ekki lengur en í 10 ár.

5. Réttindi þín

5.1.  Þar sem við vinnum, eins og kemur fram hér að framan, með persónuupplýsingar um þig þá hefur þú margs kyns réttindi sem mikilvægt er að þú fáir upplýsingar um:

5.2.  Þú átt rétt á að óska eftir aðgangi að og afriti af persónuupplýsingum þínum hjá okkur, láta okkur leiðrétta þær ef þær eru rangar eða villandi eða láta okkur eyða þeim ef við höfum ekki lengur heimild til að vinna með þær. Þessum réttindum er nánar lýst í lögum um persónuvernd, sbr. nú 17. og 20. gr. laga nr. 90/2018, Þá átt þú samkvæmt síðarnefndu lagagreininni rétt á að flytja eigin gögn eða að við takmörkum vinnslu persónuupplýsinga um þig, að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum. Þú átt einnig rétt á að andmæla vinnslunni skv. 21. gr. laganna.

5.3.  Þú getur hvenær sem er sent okkur fyrirspurn eða kvörtun vegna vinnslunnar, á netfangið personuvernd@hagar.is. Þá átt þú rétt á að leggja fram kvörtun hjá Persónuvernd vegna vinnslunnar. Skrifstofa hennar er að Rauðarárstíg 10, 105 Reykjavík og netfang hennar er postur@personuvernd.is.

6. Gildandi lög og samningsvarnarþing

6.1.  Um persónuverndarskilmála þessa gilda íslensk lög. Rísi dómsmál um ágreining milli aðila í tengslum við þá skal það mál rekið fyrir héraðsdómi Reykjavíkur.

6.2.  Þessi útgáfa persónuverndarskilmálanna er frá 5. apríl 2022 og gildir um alla vinnslu sem á sér stað frá og með þeim degi.